Diljá Sigurðardóttur var í gær vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi fyrir það eitt að vera ber að ofan. Baðvörðurinn sagðist vera að bregðast við kvörtun og brást ekki vel við ábendingum um að karlmennirnir á svæðinu væru berir að ofan.
Diljá var í ásamt roller derby-liðinu Ragnarökum í æfingabúðum á Akranesi. Eftir sex klukkustunda æfingu fór hópurinn saman í sund og eftir nokkrar mínútur í lauginni kemur baðvörður og spyr hvort það séu ekki allir í sundfötum, þar sem það hafi borist kvörtun.
Örskýring: Svona hófst #FreeTheNipple á Íslandi á sínum tíma
„Hún starði á mig en ég sagðist vera í sundfötum,“ segir Diljá í samtali við Nútímann. Baðvörðurinn sagði Diljá ekki vera í neinu að ofan og vísaði henni upp úr. Dilja sagðist hins vegar vera í fullum rétti. „Ekki í þessari laug,“ svaraði baðvörðurinn og Diljá segir að þær hafi allar verið mjög hissa.
„Stelpurnar í liðinu bentu á það væri ólöglegt að mismuna fólki svona — það væru nú topplausir karlar hérna líka,“ segir Diljá og bætir við að baðvörðinn hafi þá spurt hvort þær ætluðu virkilega að taka þessa umræðu og að það væri ekki Free the Nipple-dagurinn í dag áður en hún gekk í burtu.
Svo sátum við bara áfram og vissum ekki hvort hún myndi koma aftur og reka mig upp úr eða ekki, sem hún gerði sem betur fer ekki, hver svo sem ástæðan fyrir því var.
Diljá segist aldrei hafa fengið neikvæð viðbrögð við því að vera ber að ofan í sundi. „Þvert á móti hefur fólk hrósað mér og jafnvel spjallað við mig um mikilvægi þess að taka þátt í að breyta normum samfélagsins,“ segir hún.
„Það kom mér því á óvart að verða fyrir aðkasti yfir því sem fyrir mér er sjálfsagður hlutur og hafði fram að þessu ekki verið vandamál neinstaðar.“
Hún segir að þetta hafi ekki verið neitt sérstaklega skemmtileg upplifun. „Þetta sló mig út af laginu en samfélagið er vonandi að breytast, öllum í liðinu fannst þetta allavega svo fáránlegt að á endanum gátum við ekki annað en hlegið að þessu.