Auglýsing

Bibbi í Skálmöld telur að allir karlar geti bætt sig: „Gerum það í sameiningu, allir sem einn“

Tónlistarmaðurinn Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi í Skálmöld, telur að allir karlar geti bætt sig í samskiptum við konur. Hann hvetur kynbræður sína til að horfa í eigin barm og fara yfir stöðu sína, gjörðir og skoðanir. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Snæbjörns.

Sjá einnig: Æskuvinir rugla Bibba og Gunna saman: „Við erum ekki sami maðurinn!“

Hundruð kvenna úr fjölmörgum stéttum samfélagsins hafa undanfarið krafist þess að karlar taki ábyrgð á kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun sem viðgengst í samfélaginu. Boltinn fór að rúlla þegar stjórnmálakonur birtu fleiri en 100 reynslusögur og síðan þá hafa konur í sviðslistum, íþróttum, vísindum og fleiri starfsgreinum stigið fram.

Snæbjörn segist vita vel að margir karlar hafi orðið fyrir allskonar áreiti frá konum. „En í allra góðra vætta nafni, ekki nota það sem einhvers konar mótrök eða argjúment í umræðu undanfarinna daga og vikna,“ segir hann.

Umræðan núna snýst um þá afstöðu sem komin er upp milli karla og kvenna þar sem þær hafa lent undir vegna þess að við höfum með yfirgangi rúllað yfir þær.

Snæbjörn hvetur karla til að ganga umræðuna til enda, horfa í eigin barm og fara yfir stöðu sína, gjörðir og skoðanir í stað þess að benda á það sem mögulega er gert á hlut þeirra.

„Ég get verið dóni, durtur og óttalegur pungur, ég hef alltaf vitað það og jafnvel gengist upp í því. Ég á mér fá tabú í lífinu og læt allt flakka,“ segir Snæbjörn.

„Ég get þó sem betur fer sagt með góðri samvisku að ég ætla mér aldrei illt og horfi aldrei viljandi niður á fólk sem ég tala við. En þessi umræða, og samtöl við konur og karla kringum hana, hefur vissulega opnað augu mín fyrir mörgu sem ég sá ekki áður. Mig grunar að ég hafi sært fólk án þess að gera mér grein fyrir því. Mér þykir það afar leitt og þarf að huga að því hverju ég þarf að breyta í mínu fari.“

Snæbjörn telur að allir karlar geti bætt sig. „Gerum það í sameiningu, allir sem einn. Í kjölfarið getum við svo haldið áfram að tala um alla hina hlutina sem hægt er að bæta.“

Færslu Snæbjörns má sjá hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing