Mynd sem birtist í gær á Facebook síðu Ölvers, sumarbúða KFUM og K, olli mikilli reiði en á myndinni má sjá hvítan einstakling málaðan sem svartan, á ensku kallast þetta „blackface”. Ölver hefur sent frá sér tilkynningu þar sem beðist er afsökunar á vanhugsuðu gervi.
„Blackface” var notað á 19. og 20. öld þegar svörtu fólki var bannað að leika á sviði. Ótal manns vöktu athygli á myndinni á samfélagsmiðlum og gagnrýndu harðlega.
Það var Martina K. Williams, sem vakti fyrst athygli á myndinni á Facebook. Dóttir hennar átti að fara í sumarbúðirnar í sumar en hún var ekki viss hvort hún myndi senda hana aftur vegna myndarinnar sem margir hafa sagt að sé fordómafull og móðgandi.
Hún segist ánægð með að myndin hafi verið fjarlægð en að skaðinn sé þegar skeður. „Sú staðreynd að enginn hafi stoppað og hugsað er hræðileg.”
Í tilkynningu frá Ölver segir: „Við hörmum mjög atvikið sem varð vegna þekkingarskorts starfsmanna. Myndin er af karakter í leikriti. Þetta var vanhugsað gervi og aldrei meint á neikvæðan eða niðrandi hátt.”
„Í sumarbúðum KFUM og KFUK kennum við börnum og unglingum að allir eru jafnir, alltaf. Í starfi okkar er leitast við að mæta hverri manneskju af umhyggju, kærleika og virðingu. Við þökkum allar ábendingar sem hafa borist og tökum þær alvarlega. Við biðjumst afsökunar og munum leitast við að atvik sem þetta endurtaki sig ekki,“ segir enn frekar í afsökunarbeiðninni.