Jón Viðar Arnþórsson, bardagakappi, hefur beðist afsökunar á myndbandi sem hann og systir hans birtu á Facebook til þess að auglýsa námskeið í áhættuleik. Stundin fjallaði um myndbandið þar sem gróft heimilisofbeldi er sviðsett á dögunum og Jón Viðar birti í kjölfarið afsökunarbeiðni á Facebook síðu sinni.
Í viðtali við Stundina sagði Jón Viðar að þetta hefði verið einkahúmor og ekki hefði verið gert grín að heimilisofbeldi. Þetta hafi augljóslega verið ekkert nema grín. Á vef Stundarinnar má nálgast myndbandið umdeilda.
Í Facebook færslunni biðst hann afsökunar og viðurkennir að myndbandið hafi verið ósmekklegt. Honum þykir það sárt og leiðinlegt að myndbandið hafi farið fyrir brjóstið á svo mörgum, það hafi aldrei verið markmiðið.
„Ég er ekki að gera lítið úr heimilsofbeldi og mun aldrei gera. Ég fyrirlít það eins og allt sem tengist ofbeldi, líkamlegu og andlegu. Ég berst gegn því alla daga og mun aldrei hætta því,“ segir Jón.
Ég hef kennt bardagaíþróttir og sjálfsvörn í 19 ár. Ég hef alltaf haft það fyrir reglu að þjálfa ekki fólk sem beitir aðra ofbeldi. Ég hef hiklaust rekið fólk úr Mjölni og ISR (á þriðja tug aðila) sem hafa beitt aðra ofbeldi. Það er eitthvað sem ég mun aldrei líða. Ég hef þjálfað á annað þúsund stelpur í sjálfsvörn, margar af þeim hafa lent í ofbeldi. Ég reyni ég að öllu mætti að gera þær sterkari og hjálpa þeim að díla við hræðslu og ef þær skildu lenda í átökum aftur hvernig best er að bregðast við.
Hann ítrekar svo að honum þyki atvikið leiðinlegt og að þetta hafi verið hugsunarleysi í hamagangi þeirra systkina. Afsökunarbeiðni Jóns má sjá í heild sinni hér að neðan.