Bílastæðaverðirnir koma við sögu í Áramótaskaupinu í ár en síðasti tökudagurinn Skaupsins var í gær í bílastæðahúsi í Reykjavík. Þetta kom fram í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær.
Mikil leynd hvílir yfir efnistökum Áramótaskaupsins í ár eins og fyrri ár en Helga Braga, Jón Gnarr og Þorsteinn Guðmundsson afhjúpuðu hins vegar á Rás 2 í gær að þessir gömlu og góðu karakterar úr Fóstbræðrum snúi aftur um áramótin.
„Við erum að gera grín að því sem gerðist á árinu í okkar stíl,“ sagði Helga Braga í þættinum. Leikstjórinn Jón Gnarr sagðist fullviss um að einhverjir muni flissa yfir Skaupinu. „Það er ákveðinn Fóstbræðrabragur á því,“ sagði hann.
Finnur, Unnur og Garðar eru mætt til leiks og við ætlum að fá að fylgjast með ævintýrum bílastæðavarðanna.
Jón játaði að karakterar úr Fóstbræðrum verði endurnýttir og Þorsteinn tók undir það. „Þeir eru ákveðið tæki sem við notum. Bílastæðaverðirnir standa fyrir ákveðinn hugsunarhátt. Og ákveðið íslenskt þjóðareðli,“ sagði hann.
Jón minntist þess að fólk hafi verið reitt þegar Fóstbræður voru sýndir á sínum tíma en telur að flestir séu búnir að ná húmornum í dag. „Þetta er ákveðin bomba. Þetta er ekki beinlínis Skaup. Þetta er meira bomba,“ sagði hann.
Bílastæðaverðirnir eru stórkostlegir
Spurður út í þau ummæli sín að Skaupið verði ekki pólitískt sagði Jón Gnarr að allt sé pólitík. „Það er ekkert sem er ekki pólitík. Það sem ég er að meina kannski er að mér hefur fundist skaupið á ákveðinn hátt vinstrimannaþáttur. Þar sem vinstrimenn fá klukkutíma til að segja vinstrimannahluti,“ sagði hann og hló áður en Þorsteinn greip orðið:
„Ég er alveg sammála. Ég held að þetta sé algengur misskilningur að þú getur fengið einhvern til að skipta um skoðun með því að setja fram þátt eða brandara og fólk segir: „Ég hef nú alltaf verið hægrimaður en eftir að ég horfði á Skaupið er ég farinn að hallast til vinstri“. Það er ekki þannig. Við höfum ekkert agenda, annað en að vera fyndin.“