Bill Gates kveður landið í dag. Þetta kemur fram á Vísi. Gates hefur dvalið ásamt fjölskyldu sinni í glæsibústaðnum The Trophy Lodge í Úthlíð í Biskupstungum undanfarna daga.
Gates kom til landsins í síðustu viku og hefur nýtt tímann í að ferðast um landið — nú síðast fór hann í þyrlu á Hornstrandir til að freista þess að sjá refi, samkvæmt Vísi.
The Trophy Lodge var áberandi í fréttum í nóvember í fyrra þegar Beyoncé Knowles og Jay-Z dvöldu í bústaðnum.
Sjá einnig: The Trophy Lodge er vinsæll hjá erlendum milljónamæringum
Heimildir Nútímans herma að mikill viðbúnaðir hafi verið í The Trophy Lodge áður en Gates-fjölskyldan mætti á svæðið. Á meðal þess sem var flutt í bústaðinn voru líkamsræktartæki úr Reykjavík.
Vísir greinir frá því að Bill Gates og fjölskylda hafi um helgina leigt Bláa lónið útaf fyrir sig og fjölskyldu sína og skellt sér í miðnætursund.
Gates fór einnig ásamt fjölskyldu sinni til Vestmannaeyja um helgina. Fyrir helgi fóru þau á hestasýningu sem var sett sérstaklega upp fyrir fjölskylduna á Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum. Fjölskyldan snæddi einnig kvöldverð á staðnum.
Litlar upplýsingar er að finna um The Trophy Lodge opinberlega. Á vefsíðu bústaðarins er lítið að finna í dag en áður var aðeins að finna tvær myndir, skilaboð um að vefurinn opni fljótlega og að staðurinn sé „Fit for a King“.
Sjá einnig: Bill Gates fór með þyrlu til Vestmannaeyja
The Trophy Lodge er í eigu veitingamannsins Jóhannesar Stefánssonar, sem kenndur er við Múlakaffi. Í fyrstu var um að ræða sumarbústaðinn hans sem hann lánaði til vina og kunningja en samkvæmt heimildum Nútímans er The Trophy Lodge í dag aðalstaðurinn fyrir milljónamæringa sem vilja ekki vera innan um aðra ferðamenn.
Ekki er hægt að leigja The Trophy Lodge nema í heilu lagi og eftir því sem Nútíminn kemst næst hefur staðurinn verið vinsæll hjá ríkum rússum og öðrum auðmönnum undanfarið.
Beyoncé birti þessa mynd úr The Trophy Lodge.
Höfuð alls konar dýra hanga á veggjunum innanhúss, vínkjallari er á staðnum og íslenskir skemmtikraftar hafa komið þar fram í einkaveislum. Ný álma með lúxusherbergjum opnaði í vor en staðurinn getur tekið á móti allt að 20 manns í gistingu, samkvæmt heimildum Nútímans.
Sjá einnig: Bill Gates skoðar hesta í Biskupstungum
Bill Gates er 59 ára gamall og kvæntur Melindu Gates. Þau eiga þrjú börn.
Hann er um þessar mundir ríkasti maður heims en tímaritið Forbes metur auðævi hans á 79 milljarða dali. Það eru rúmlega 10 billjónir íslenskra króna. Eða svona mikið: 10.598.640.000.000.
Hann hefur heitið því að gefa stærstan hluta auðæva sinna til góðgerðarmála.