Auglýsing

Bilun í búnaði á Fjölskylduhátíðinni í Vogum: Flugeldasýningin sprakk öll í einu – MYNDBAND

„Við þökkum kærlega fyrir frábæra skemmtun í kvöld! Þið voruð frábær, því miður kom upp bilun í búnaði til að sprengja flugeldana og biðjumst við velvirðingar á því að ekki fór eins og við vildum en við vonum að þið fyrirgefið okkur þetta, við komum tvíefld á næsta ári! Takk fyrir okkur!“ segir á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar Skyggnis í Vogum.

Til stóð að halda veglega flugeldasýningu fyrir þann mikla fjölda sem heimsótti Fjölskylduhátíðina í Vogum sem er árlegur viðburður og er alltaf haldin á sama tíma líkt og Menningarnótt í Reykjavík, sem er haldin næstu helgi, og Ljósanótt í Reykjanesbæ, sem er haldin fyrstu helgina í september.

Hátíðin fór vel fram þrátt fyrir allt

Hátíðin fór afar vel fram en hápunktur hennar, líkt og þeirra sem taldar voru upp hér á undan, er ávallt hin stórglæsilega flugeldasýning en björgunarsveitin Skyggnir hefur haft yfirumsjón með henni fyrir hönd bæjarfélagsins. Hingað til hafa þær alltaf verið mikið sjónarspil og má í raun segja að þessi í ár hafi nú verið það líka en þó með öðru „sniði“ ef svo mætti að orði komast.

Á vef Víkurfrétta er greint frá umræddri bilun í kveikibúnaði en þar stendur: „Sýningin stóð reyndar stutt þar sem flestir flugeldarnir fóru upp á um einni mínútu. Á meðan skothríðinni stóð var mikið sjónarspil.“

Fréttastjóri Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson, var staddur í Vogum og var með flygildi á lofti þegar flugeldasýningin fór af stað og er hægt að sjá hvernig flestir flugeldarnir springa nánast í loft upp á sama tíma.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing