Birkir Már Sævarsson verður í eldlínunni þegar Íslendingar hefja leik á HM í knattspyrnu gegn Argentínu þann 16. júní næstkomandi. Birkir flutti heim til Íslands í vetur eftir langan tíma erlendis og spilar nú með uppeldisfélagi sínu, Val.
Ásamt því að spila fótbolta með Val og landsliðinu vinnur Birkir hjá Saltverk. Hann þurfti að taka sér frí frá vinnu til þess að keppa á HM en frá þessu er greint á fótboltamiðlinum Fótbolta.net. Þar segir að Birkir sé líklega eini leikmaðurinn á HM sem þurfti að taka sér frí frá vinnu til þess að taka þátt í mótinu.
„Ég sagði þeim þegar ég sótti um að ég yrði sennilega í burtu allan júní mánuð. Það var tekið vel í það og ég fékk vinnuna. Þetta eru allt fótboltaáhugamenn og þeir voru bara ánægðir með þetta,” sagði Birkir við Fótbolta.net
Birkir er ein leikmaðurinn úr Pepsi-deildinni á Íslandi sem mun spila á HM en Kári Árnason og Ólafur Ingi Skúlason eru einnig á heimleið eftir HM.
Birkir mun fá verðugt verkefni í fyrsta leik Íslands á HM en hann mun gæta Lionel Messi í leiknum. Messi er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður allra tíma.