Auglýsing

Birti myndir af sér í sömu fötunum, önnur tekin fyrir 17 árum: „Var einn af ljótu unglingunum“

„Ég var klárlega einn af ljótu unglingunum,“ segir Ríkharður Hjartar Magnússon. Fyrir tveimur árum var ljósmyndasafn Austurlands gert aðgengilegt á netinu og fann hann þá mynd af sér tæplega tvítugum í úlpu og með derhúfu á heimavist Menntaskólans á Egilsstöðum. „Þá kom þessi helvítis mynd,“ segir hann.

Að undanförnu hafa margir deilt mynd af unglingsárunum á Facebook og ákvað Ríkharður þá að birta myndina. Hann ákvað að bæta um betur og heimsótti móður sína í von um að finna úlpuna og derhúfuna.

„Ég fór upp á háaloft, gramsaði og fann þetta,“ segir hann.

Það var eiginlega alveg ómögulegt að taka myndina ekki aftur.

Fór hann á heimavist Menntaskólans á Egilsstöðum þar sem mynd var tekin af honum í úlpunni og með derhúfuna á sama stað og fyrir sautján árum. Ríkharður birti myndirnar tvær saman og vöktu þær mikla lukku hjá vinum hans á Facebook.

Ríkharður segist vera heppinn að eiga mynd af sér þegar hann var „ógeðslega ljótur“ unglingur. „Sumir eiga glataða fermingarmynd en ég átti þessa úlpumynd, sem verður að teljast mjög slæm,“ segir hann.

Á þessum tíma voru ljósmyndarar sendir út til að taka myndir af fólki og spyrja það spurningu vikunnar fyrir blaðið Austra. Ríkharður man ekki eftir myndatökunni en grunar að hún hafi verið fyrir þetta tilefni. Hann telur að að myndin hafi verið tekin fyrir um sautján árum, eða þegar hann var tæplega tvítugur.

Óhætt er að segja að Ríkharður hafi elst vel og tekur hann undir það með blaðamanni Nútímans. „Það er líka markmiðið með myndinni, það er greinilega von fyrir einhverja aðra þarna úti,“ segir hann.

Hann hvetur aðra eindregið til að gera slíkt hið sama. Eigi fólk ekki fötin sem það var myndað í fyrir mörgum árum hvetur Ríkharður það til að endurgera fermingarmyndina, þar sé nóg að útvega sér fermingarkyrtil.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing