Stjórn útgáfufélagsins Birtíngs segir í fréttatilkynningu að Helga Arnardóttir, sem hætti hjá Birtíngi eftir tæpan mánuð í starfi, segi ósatt um ástæður starfsloka sinna. Helga birti yfirlýsingu á Facebook í dag þar sem hún sagði að framkoma stjórnenda fyrirtækisins hafi valdið sé miklum vonbrigðum eftir að þeir tóku einhliða ákvörðun um að gjörbreyta hlutverki hennar hjá fyrirtækinu.
Sjá einnig: Helga gagnrýnir stjórnendur Birtíngs harðlega
Helga sagði upp föstu starfi sínu hjá Ríkisútvarpinu og var ráðin sem yfirritstjóri Birtings í desember. Í gær greindu fjölmiðlar frá því að hún væri hætt. Hún segir í yfirlýsingu sinni að fögur fyrirheit hafi verið uppi og stór áform um að ráðast í töluverðar breytingar á Birtingi með tilkomu nýrra eigenda, meðal annars í stafrænni uppbyggingu. „Þegar til kastanna kom voru öll slík áform á sandi reist,“ sagði hún í dag. Þá sagðist hún ekki hafa notið ritstjórnarlegs sjálfstæðis við útgáfu Mannlífs.
Stjórn Birtíngs sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem kemur meðal annars fram að ekki hafi verið vegið að ritstjórnarlegu sjálfstæði hennar við útgáfu Mannlífs. „Stjórnin harmar það að reyndur fjölmiðlamaður fari svo frjálslega með staðreyndir,“ segir þar.
„Á fundi með tveimur af þremur stjórnarmönnum Birtíngs, stuttu fyrir janúarútgáfu Mannlífs, kom það skýrt fram að hvorki stjórn né eigendur ætluðu að skipta sér af því hvað fjallað væri um í blaðinu. Þvert á móti fór það ekki á milli mála á þeim fundi að hún hefði fullkomið ritstjórnarlegt frelsi.“
Í fréttatilkynningunni kemur fram að ástæða starfsloka Helgu sé sú að fljótlega hafi komið upp ágreiningur á milli Helgu og annarra starfsmanna á ritstjórn Birtíngs sem ekki reyndist unnt að leysa. „Þetta er eina ástæða starfsloka Helgu Arnardóttur,“ segir í fréttatilkynningunni.
Helga sagði í yfirlýsingu sinni í dag að hún taldi ljóst að hún naut ekki stuðnings stjórnenda Birtings í þeim breytingum sem hún var ráðin til að leiða. „Þá naut ég ekki heldur þess ritstjórnarlega sjálfstæðis við útgáfu Mannlífs sem ég tel nauðsynlegt grundvallaratriði til að starfa við í frjálsri og óháðri fjölmiðlun,“ sagði hún.
„Ég hef einungis starfað á tveimur fjölmiðlum á mínum 15 ára ferli og átt gott og heilbrigt samstarf við atvinnurekendur mína og samstarfsmenn á þeim tíma. Framkoma vinnuveitenda á þessum skamma tíma hjá Birtingi olli mér miklum vonbrigðum og eftir átján daga í starfi var alveg ljóst að forsendubrestur væri kominn í þetta samstarf og því yrði ekki haldið áfram.“