Kærasta karlmannsins sem var stunginn í lærið í Kjarnaskógi við Akureyri í gær dró úr blæðingunni með því að binda peysu og reim úr buxnastreng sínum um lærið og manninum. Hann hlaut við þetta slagæðablæðingu. Maðurinn á kærustunni líf sitt að þakka en hann er ekki lengur í lífshættu. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.
Þrjú eru í haldi lögreglunnar á Akureyri í tengslum við hnífsstunguna og fíkniefnamál sem kom upp í kjölfar árásarinnar. Alls voru sex manns handteknir í tengslum við málin tvö. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu.
Um klukkan 14 í gær var lögreglunni á Akureyri tilkynnt um að maður hefði verið stunginn tvisvar í lærið eftir að ósætti og átök brutust út. Sá sem grunaður er um að hafa stungið manninn var handtekinn í bíl á Akureyri um kvöldmatarleytið í gær en í bílnum fundust meðal annars barefli og exi.
Skömmu síðar var par handtekið grunað um að tengjast málinu og fannst nokkuð magn af fíkniefnum í fórum þeirra.