Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, segir landsbyggðarþingmenn ekki eiga að sætta sig við lægri afkomu en þingmenn höfuðborgarsvæðisins. Ummæli hennar í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut hafa vakið mikla athygli en þar sagði hún húsnæðisgreiðslur sem hún þiggur mánaðarlega frá Alþingi ekki duga fyrir afborgunum íbúðar hennar í Reykjavík.
Umræðan um starfskjör þingmanna hefur verið áberandi undanfarið og nýlega birti Alþingi upplýsingar um laun og greiðslur til þingmanna á vef sínum. Í þættinum Þjóðbraut sagðist Bjarkey hafa fjárfest í íbúð í Reykjavík árið 2013 og að greiðslur frá Alþingi upp á rúmlega 180 þúsund krónur á mánuði dugi ekki fyrir afborgunum af láninu.
Bjarkey hefur verið harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum eftir að Eyjan birti frétt um málið í gær. Á meðal þess sem bent hefur verið á er að virði íbúðar hennar í Reykjavík hafi hækkað mikið — vísitala íbúaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um tæplega 70 prósent á árunum 2013 til dagsins í dag.
Í reglum um þingfararkostnað kemur fram að landsbyggðarþingmenn fái mánaðarlega greiddar 134.041 krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað. Við það bætast við 53.616 krónur á mánuði fyrir þingmenn sem búa á landsbyggðinni og halda annað heimili í Reykjavík. Laun þingmanna eru 1.101.194 krónur á mánuði og ofan á þau bætast ýmsar mánaðarlegar greiðslur.
Í samtali við Nútímann segir Bjarkey mikilvægt að jafna aðstöðumun þingmanna. „Það þarf að horfa á þetta út frá aðstöðumun,“ segir hún.
Þingmenn af landsbyggðinni eiga ekki að sætta sig við lægri afkomu en þingmenn höfuðborgarsvæðisins. Mér finnst óeðlilegt að aðilar vinni hlið við hlið og annar þurfi að borga með sér en hinn ekki.
Aðspurð um hvort eðlilegt sé að greiðslur frá þinginu eiga að standa algjörlega undir greiðslum af húsnæðislánum þingmanna segir Bjarkey það ekki skipta öllu máli hvort þingmenn kjósi að leigja sér húsnæði eða kaupa. „Ég valdi það á þessum tíma að nota sparifé sem ég átti, taka lán og kaupa íbúð,“ segir hún.
Bjarkey vill ekki taka afstöðu til þess hvort hækka eigi greiðslur vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar þingmanna. „Það hefur oft verið talað um að hækka þessar greiðslur en ég hef ekki neina skoðun á því. Verð getur verið breytilegt á hverjum tíma og það getur verið að markaðurinn verði betri eftir tíu ár,“ segir hún.