Bjarki Þór Pálsson í Mjölni sigraði Englendinginn Alan Procter á Fightstar 9 bardagakvöldinu sem fór fram í London í gærkvöldi. Bjarki sigraði með tæknilegu rothöggi í annarri lotu.
Þetta var önnur viðureign þeirra en í fyrra skipti sem þeir mættust, í desember á síðasta ári, var Bjarka dæmdur sigur eftir að hafa fengið í sig ólöglegt hnéspark sem varð til þess að hann rotaðist.
„Ég er ótrúlega glaður. Það vó þungt á mér að koma þessum bardaga út úr systeminu. Þó svo að mér hafi verið dæmdur sigur í seinasta bardaga þá var mér mikið í mun að klára þetta á mínum verðleikum. Og ég tel mig hafa gert það,” sagði Bjarki eftir bardagann.
Bjarki ætlar að njóta næstu daga í sólinni.
„Næsta mál á dagskrá hjá mér er smá frí með kærustunni minni sem er í námi á Spáni. Ætla að taka nokkra daga í sólinni með henni og njóta lífsins. Svo er það bara aftur á teikniborðið, finna næsta bardaga og keyra allt í gang. Ég stefni hátt og finn að ég er kominn á rétta sporið,“ segir Bjarki.