Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er í áttunda sæti á lista yfir kynþokkafyllstu þjóðarleiðtoga heims. Listann má finna á vefnum Hottest Heads of State en 200 þjóðarleiðtoga er þar að finna.
Bjarni datt inn á listann í dag, daginn sem hann tók við embætti, eftir að Stefán Rafn Sigurbjörnsson, blaðamaður á fréttastofu 365 sendi inn ábendingu á Twitter.
Stefán benti á forsíðu tímaritsins Nýs lífs frá árinu 2012 máli sínu til stuðnings
Dear @HotHeadofState Iceland has a new PM (again). His name is Bjarni Ben (or BB King). Could you please update your list. Thx bye. #iceland pic.twitter.com/LQE01GWAJG
— Stefán Rafn (@StefanRafn) January 11, 2017
Ritstjóri vefsíðunnar var fljótur að bregðast við og uppfærði listann á vefnum. Bjarni er í sætinu fyrir ofan Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands á listanum og sæti neðar en Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er í efsta sæti listans og Jigme Khesar Namgyel Wangchuck, konungur Bútan, er í öðru sæti. Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseti er í fjórða sæti listans en efsta konan á listanum er Kolinda Grabar-Kitarović, forseti Króatíu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er í neðsta sæti listans og Robert Mugabe, forseti Simbabve er í því næst neðsta.