Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tjáði sig í fyrsta skipti um Icehot1-málið í spjallþætti Loga Bergmann á Stöð 2 í kvöld. Bjarni sagði að hann hafi ekkert munað eftir því að hafa skráð sig á síðuna og að hann geri grín að málinu í dag.
Logi spurði Bjarna hvort hann væri orðinn þreyttur á bröndurum um málið. „Ég er farinn að nota þá mest sjálfur. Það er ágætt að snúa því upp í grín á sjálfan sig — ég hvet fólk til að skipta um lykilorð reglulega og fara varlega á netinu,“ sagði Bjarni léttur.
Ímyndaðu þér, ég mundi ekkert eftir þessu. En það er rosalegt hvað mikið af gögnum eru geymd á netinu í langan tíma. Maður veit aldrei hvenær þau birtast fyrir allan almenning.
Logi spurði Bjarna líka hvort hann sjái eftir því að hafa opnað fyrir umræðu um málið sjálfur en eiginkona hans birti fyrstu færsluna um málið á Facebook.
„Nei. ég leit allan tímann svo á að það væri ekkert að fela,“ sagði hann. „Það var mikið verið að ræða þetta í kringum mann, langbest að stinga á þá blöðru.“
Sjá einnig: Valdís kynnir ís í kjölfar frétta af Bjarna Ben: IceHot1 með hvítu súkkulaði og chili
Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna, velti snjóbolta niður internethæðina í byrjun september þegar hún sagði frá því á Facebook-síðu sinni að þau hjón hafi skráð sig fyrir forvitnissakir á vefinn umdeilda Ashley Madison.
Vefurinn Ashley Madison leiðir saman gift fólk og fólk í samböndum sem hefur áhuga á að halda fram hjá maka sínum. Vefurinn komst í heimsfréttirnar á dögunum þegar tölvuþrjótar réðust á vefinn og stálu þaðan upplýsingum um 37 milljónir notendur vefsins.