Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, svarar því ekki hvort hann styður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem varaformann flokksins. Þetta kom fram í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Á sama tíma er hart er lagt að Hönnu Birnu að hætta við að gefa kost á sér til varaformennsku á landsfundi flokksins í október. Þetta kom fram á Vísi í gær. Þar kemur einnig fram að hart sé lagt að Ólöfu Nordal að gefa kost á sér en hún tók við embætti innanríkisráðherra af Hönnu Birnu í kjölfarið á lekamálinu.
Hanna Birna staðfesti nýlega við Stöð 2 að hún ætlaði aftur fram og sagðist telja að hún nyti trausts innan flokksins. Ólöf Nordal vildi hvorki játa né neita að hún ætlaði fram þegar Stöð 2 hafði samband við hana og sagðist ekki ætla að tjá sig frekar um málið í bili.
Bjarni var spurður um landsfundinn sem er framundan hjá Sjálfstæðisflokknum í Sprengisandi í morgun. Hann sagðist ekki telja að það væri nein hefð fyrir því að formaður hlutaðist til um kjör varaformanns.
„Mér finnst að ég eigi ekki að blanda mér í það,“ sagði hann en sagðist treysta Hönnu Birnu til góðra verka.