Þjóðhatíðargestir með heimþrá bjóða nú allt að 25 þúsund krónur í miða í Herjólf frá Vestamannaeyjum til Landeyjahafnar. Þetta kemur fram á Mbl.is.
Svarti markaðurinn er í Facebook-hópnum Þjóðhátíð 2014!!! en þar auglýsir fólk einnig eftir týndum símum, bíllyklum og öðru sem hefur týnst í hita leiksins um helgina. 25 þúsund krónur voru boðnar í miða til Landeyjahafnar klukkan 17 í dag en almennt miðaverð er 1.260 krónur.
Í samtali við Mbl.is sagðist Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, ekki hafa heyrt af þessu. „Ætli það sé ekki erfitt að eiga við það ef einhverjir einstaklingar eiga miða í bátinn og kjósa að selja hann,“ sagði hann. „Þjóðhátíðarnefnd keypti 2/3 af miðunum fyrir og eftir hátíðina til að koma í veg fyrir það sem hlýtur að flokkast undir svartamarkaðsbrask.“
Tilraunir til að koma í veg fyrir braskið virðast því hafa mistekist.