Óskað er eftir kynlífi í skiptum fyrir lyf í lokuðum hópi á Facebook. Verkefnastýra á Stígamótum hvetur lögreglu til að skoða slíkar síður.
Rúmlega fjögur þúsund manns eru meðlimir í lokuðum Facebook-hópi sem kallast Kynlíf og ævintýri. Þar er kynlíf í boðið gegn gjaldi, auk auglýsinga þar sem sem fólk óskar eftir því að kaupa vændi.
Meðlimirnir virðast vera á öllum aldri en tekið er fram í lýsingu hópsins að hann sé ekki ætlaður börnum og fólk hvatt til að tilkynna stjórnendum ef börn eru þar inni.
Nær allir sem nota síðuna ýmist óska eftir eða auglýsa vændi notast við dulnefni en í lýsingu hópsins segir. „Æskilegt er að öll samskipti fari fram í einkaskilaboðum! Þið komið ykkur á framfæri á veggnum og þeir notendur sem hafa áhuga, senda ykkur einkapóst.“
Þó svo að að tilgangur síðunnar sé e.t.v. ekki að vera vettvangur fyrr kaup og sölu á vændi er það þó raunin en í reglum hópsins segir. „Þetta er ekki kynlífssölusíða en það sem gerist fólks á milli í einkaskilaboðum kemur okkur hinum ekkert við.“
Mjög algengt er að óskað sé eftir kynlífi gegn greiðslu peninga en þó er dæmi þess að lyfseðilskyld lyf séu í boði, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd úr hópnum.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra á Stígamótum, segir í samtali við Nútímann að það komi sér ekki á óvart að sala á vændi fari fram á Facebook. „Við vitum að það eru allir miðlar notaðir til að nálgast vændi,“ segir hún.
Þetta kemur okkur ekki á óvart.
Steinunn hvetur lögregluyfirvöld til að skoða mál sem þessi vel. „Hér á landi eru í gildi lög sem banna kaup á vændi og við hvetjum að sjálfsögðu lögregluyfirvöld til að skoða vel síður eins og þessa,“ segir hún.
Ekki náðist í Snorra Birgisson lögreglufulltrúa við vinnslu fréttarinnar en samkvæmt frétt mbl.is um mál af svipuðu tagi er lögreglan meðvituð um ólögleg viðskipti á Facebook og eru slík mál sífellt í skoðun.