Kaupsýslumaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur greitt alls 1.200 milljónir til lánadrottna sinna. Heildaruppgjöri hans og fjárfestingarfélags hans, Novators, er því lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Björgólfi og vefur Viðskiptablaðsins greinir frá.
Íslenskir bankar og dótturfélög þeirra hafa alls fengið greidda rúma 100 milljarða króna. Allar greiðslur voru í erlendri mynt og engar skuldir voru gefnar eftir, samkvæmt tilkynningunni.
Allar eigur Björgólfs lágu til grundvallar í samkomulaginu við lánadrottna. Þar á meðal ýmsar persónulegar eignir sem gengu til lánadrottna um leið og gengið var frá samkomulaginu. Þar á meðal var hús í Reykjavík, sumarhús við Þingvelli, einkaþota og snekka. Allar voru þessar eignir seldar.
Á vef Viðskiptablaðsins kemur einnig fram að í samkomulaginu hafi jafnframt falist að Björgólfur Thor myndi áfram verða hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding, en þessar eignir væru til tryggingar á eftirstandandi skuldum.