Einar Magnússon skipsstjóri og Bryndís Sævarsdóttir hjúkrunarfræðingur úr Reykjanesbæ komu pari og tveggja ára barni til bjargar í flæðarmálinu á Barðaströndinni í gær. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.
Fólkið var í bíl sem fór í sjóinn og var horfinn á kaf þegar Einar og Bryndís komu á staðinn. „Berjaleitin á Barðaströndinni í gær tók óvænta stefnu þegar Einar kom auga á hreyfingu þarna í flæðarmálinu,“ segir Bryndís á Facebook-síðu sinni. Ekki náðist í hana í síma.
Skömmu áður hafði bíll keyrt í sjóinn og var horfinn á kaf. Einar náði fólkinu úr sjónum pari og tveggja ára barni. Lélegt símasamband og erfiðar aðstæður.
Einar og Bryndís keyrðu svo með fólkið á móti sjúkrabíl sem kom úr Búðardal. „Ótrúleg lukka að þau séu heil á húfi,“ segir hún.