Björgunarsveitir á suðurlandi voru kallaðar út rétt eftir hádegi í dag þegar tilkynning barst um göngumann sem hafði slasað sig í Reykjadal ofan Hveragerðis. Frá þessu er greint á Vísi.is
Þar kemur fram að ekki hafi verið um alvarlega áverka að ræða en að einstaklingurinn hafi þó ekki verið göngufær. Björgunarsveitarfólk mætti á staðinn, bjó um áverkann og bar einstaklinginn til byggða.
Í tilkynningu Landsbjargar kemur fram að nokkur erill hafi verið á björgunarsveitum um allt land síðasta sólarhringinn.
Í gærkvöldi var slasaður göngumaður sóttur í Geldingafellskála, norðaustan við Vatnajökul. Maðurinn var ekki göngufær og vegna vegalengdar til byggða komu björgunarsveitir honum ekki til byggða fyrr en snemma í morgun.
Töluvert hefur verið um að fólk sé að festa bíla sína í straumvatni og ám en Landsbjörg vill benda á að í rigningatíð geta ár breyst hratt og ætíð sé betra að leita upplýsinga um aðstæður áður en lagt sé af stað.