Leit að Arturi Jarmoszko, 26 ára karlmanni sem síðast sást til um mánaðarmótin, hefst klukkan hálf tvö í dag. Leitað verður á svæðinu frá Gróttu og að Nauthólsvík og mun björgunarsveitarfólk nota dróna og slöngubáta við leitina.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá lögreglu sást hann síðast í eftirlitsmyndavélum ganga frá Suðurgötu í átt að Háskóla Íslands.
Þriðjudagskvöldið 28. febrúar fór hann einn í Laugarásbíó og notaði hann strætó til að komast þangað. Eftir sýninguna fór hann niður í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann sést taka peninga úr hraðbanka. Þaðan gekk hann út Suðurgötu klukkan eitt um nóttina í átt að Háskóla Íslands.
Ástæðan fyrir því að leitað verður á þessu svæði í dag er sú að símamastur við Kársnes í Kópavogi greindi síðast merki úr síma Arturs um nóttina.