Björk Guðmundsdóttir, Jóhann Jóhannsson og hljómsveitin Of Monsters and Men voru í dag tilnefnd til bandarísku Grammy-verðlaunanna.
Þetta er í 14. sinn sem Björk er tilnefnd til Grammy-verðlauna. Hún er tilnefnd fyrir plötuna Vulnicura í flokki alternative platna. Plöturnar Sound & Color með Alabama Shakes, The Waterfall með My Morning Jacket, Currents með Tame Impala og Star Wars með Wilco voru einnig tilnefndar í flokknum.
Jóhann er tilnefndur fyrir tónlistina í kvikmyndinni Theory of Everything. Antonio Sanchez er tilnefndur í sama flokki fyrir tónlistina í Birdman, Alexandre Desplat fyrir tónlistina í The Imitation Game, Hans Zimmer fyrir tónlistina í Interstellar og Justin Hurwitz fyrir tónlistina í Whiplash.
Þá er Of Monsters and Men tilnefnd fyrir plötu sína Beneath the Skin í flokki umbúðahönnunar á viðhafnarútgáfum og keppir þar við Father John Misty, Rolling Stones, Grateful Dead og safnplötu plötuútgáfunnar Paramount Records.