Margir íhuga nú að hætta að borða svínakjöt í kjölfar umfjöllunar RÚV um íslensk svínabú sem brjóta lög um velferð dýra. Grínistinn og fjölmiðlamaðurinn Björn Bragi Arnarsson hætti að borða svínakjöt fyrir sex árum og segir ekki ásættanlegt að nokkurt dýr þurfi að lifa við svona aðstæður.
RÚV birti meðal annars myndir úr íslenskum svínabúum sem sýna að gyltur voru í sumum tilfellum hafðar á svo þröngum básum að þær gátu ekki rétt úr fótunum. Þá var allt að önnur hver gylta með legusár. Dýralæknir hjá Matvælastofnun sagði í samtali við RÚV augljóst að verið sé að brjóta lög um velferð dýra.
Björn Bragi hætti að borða svínakjöt fyrir sex árum. „Það voru ýmsar ástæður fyrir því að ég tók þá ákvörðun,“ segir hann í samtali við Nútímann.
Svín eru greind og skemmtileg dýr með tilfinningar og ég hreinlega hætti að geta hugsað mér að leggja þau mér til munns.
Hann segist eiga mjög erfitt með að sjá fréttirnar af aðbúnaði á svínabúum.
„Myndirnar eru algjör hryllingur og ógeðslegt að einhver geti komið svona fram við dýr. Það er ekki ásættanlegt að nokkurt dýr þurfi að lifa við svona aðstæður og ég vona innilega að þessi mál verði tekin rækilega í gegn hér á landi.“
Björn segist hafa heyrt um marga tala um að þeir vilji hætta að borða svínakjöt eftir fréttir síðustu daga. „Ég get sagt fyrir mitt leyti að það er það auðveldasta sem ég hef gert og ég er mjög sáttur við að hafa tekið þá ákvörðun,“ segir hann.