Björn Steinbekk er byrjaður að endurgreiða þeim sem keyptu af honum miða á leik Frakklands og Íslands á EM og fengu þá ekki afhenta. Þetta staðfestir miðakaupandi í frétt á vef RÚV. Hann segir að endurgreiðsla hafi borist á milli fjögur og fimm í dag.
RÚV greinir frá því að miðar hafi verið endurgreiddir að Björn hafni öllum frekari kröfum frá þeim sem keyptu af honum miða. Í viðtali við Björn á mbl.is kemur fram að 69 manns sem keyptu miða af Birni fengu þá ekki afhenta.
Í frétt mbl.is kemur fram að fyrstu miðarnir hafi verið endurgreiddir í gær. Þorsteinn Einarsson, lögmaður hjá Forum lögmannsstofu, sem annast málið, staðfestir það.
Björn segir í viðtalinu á mbl.is að sín helstu mistök hafi verið að hafa ekki fengið aðstoð lögreglu strax við að koma miðunum skilmerkilega út. „En á endanum fékk ég þá aðstoð,“ segir hann.
Eðlilega voru margir orðnir reiðir á því að bíða og andrúmslofið gerði okkur ómögulegt að koma miðum til fólks á skilvirkan hátt. Mín helstu mistök eru að hafa ekki fengið aðstoð lögreglu strax við að koma miðunum skilmerkilega út, en á endanum fékk ég þá aðstoð.
Hann segir á mbl.is að aðalverkefnið síðustu daga hafi verið að reyna að bæta úr og bjarga því sem hægt er. „Þegar maður í einni svipan missir mannorðið án þess að geta í raun borið hönd fyrir höfuð sér og allt sem maður hefur byggt upp síðustu ár er farið, þá kemur ákveðin ró á hugann,“ segir hann.
„Ég hef gengið í gegnum áföll sem ég óska engum en þetta er með því versta. Ég mun þegar öll kurl koma til grafar biðja fólk að skoða þau gögn og upplýsingar sem t.d. koma fram hér og á næstu vikum og spyrja sig af hverju maður sem hefur haft lifibrauð af því að selja miða á viðburði síðan hann var ungur maður skuli hafa ákveðið að ætla að fórna öllu með því að svindla. Slíkt er fjarstæðukennt.“