Einkahlutafélagið Sónar Reykjavík, sem er í meirihlutaeigu Ernu Häsler eiginkonu Björns Steinbekk, hefur kært Eldar Ástórsson, fyrrverandi stjórnarmann í félaginu. Björn Steinbekk er framkvæmdastjóri félagsins. Þetta kemur fram á vef DV.
Í frétt DV kemur fram að Eldar sé kærður fyrir að reyna að hagnýta sér upplýsingar sem hann fékk þegar hann var stjórnarmaður í Sónar Reykjavík til að sölsa undir sig tónlistarhátíðina Sónar hér á landi og viðskiptasambönd henni tengd.
Viðskipti með miða á EM í fótbolta í Frakklandi í sumar fóru í gegnum félagið Sónar Reykjavík. Þau sem keyptu miða af Birni Steinbökk lögðu fé inn á reikning tónlistarhátíðarinnar, sem hefur verið haldin í Reykjavík undanfarin ár.
Eins og frægt er seldi Björn fjölmörgum Íslendingum miða á leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum keppninnar. Miðarnir skiluðu sér hins vegar ekki til allra og er Björn ennþá að vinna í að endurgreiða þeim sem sátu eftir með sárt ennið. Þá hefur Björn verður kærður að minnsta kosti tvisvar fyrir að selja miða sem bárust ekki til kaupenda.
Eldar sat á þeim tíma í stjórn félagsins Sónar Reykjavík. Hann sagði sig úr stjórninni þegar málið kom upp og um miðjan júlí tilkynnti spænskt móðurfélag tónlistarhátíðarinnar Sónar að samstarfssamningi sínum við Sónar Reykjavík ehf. og þar með Björn hafi verið slitið.
DV vitnar í kæruna þar sem kemur fram að Eldar hafi frá því að hann sagði sig úr stjórninni unnið gegn hagsmunum Sónar Reykjavíkur ehf. og reynt að ná til sín tónlistarhátíðinni og viðskiptasamböndum félagsins.
„Eru horfur á að kærði valdi kæranda stórfelldu tjóni með ólögmætum aðgerðum sínum. Því er þýðingarmikið að lögreglurannsókn hefjist tafarlaust og jafnframt að hin ólögmæta starfsemi verði stöðvuð,“ segir í kærunni sem DV vitnar í.
Þá er hann sakaður um að hafa hagnýtt sér upplýsingar sem hann hafi fengið sem stjórnarmaður í Sónar Reykjavík ehf. um uppbyggingu, verkefni og viðskiptamenn félagsins.