Björn Steinbekk segist ekki enn hafa komist að því hver raunverulega sveik hann um miðana sem hann ætlaði að selja á leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum EM í fótbolta í sumar.
Hann segist hafa greitt um 10 milljónir til þeirra sem vildu endurgreiðslu vegna málsins.
Þá sagðist hann enn eiga eftir að standa skil á um sex milljónum. Ekki hafi liðið einn dagur síðustu þrjá mánuði hjá honum sem ekki hafi farið í að reyna að ná í þá peninga sem hann segist hafa verið svikinn um.
Þetta sagði Björn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Sagði hann nokkrum sinnum að hann hefði ekki ætlað að svíkja fólk og að hann hafi ekki verið að selja miða sem hann hafði ekki.
mbl.is greindi frá því í gær að Kristján Atli Baldursson, eigandi Netmidi.is, ætli með mál gegn Birni fyrir dómstóla. Kristján telur sig eiga 5,2 milljónir inni hjá Birni eftir viðskipti þeirra í sumar vegna EM í fótbolta.
Sjá einnig: Ætlar með mál gegn Birni Steinbekk fyrir dómstóla, hefur ekki fengið 5,2 milljónir
„Þegar þetta kemur upp og fer af stað er lítið sem maður getur sagt og gert til að hafa áhrif,“ sagði Björn.
Tónninn var sleginn strax í upphafi, tónninn um það að ég hafi ekki haft neina miða til að selja. Ég fór í eitt viðtal og ákvað síðan að fara að vinna í því að fara að endurgreiða miðana.
Björn segist hafa ákveðið að byrja á því að endurgreiða þá miða sem voru keyptir beint af honum og huga síðan að þeim sem keyptu miða og ætluðu að hagnast á því að selja þá til annarra.
Björn sagðist hafa selt 458 miða á leikinn en afhent 389 miða fyrir utan völlinn. Eftir sitji um sjötíu miðar og skýrist það að stærstum hluta af því að bróðir hans hafi verið rændur. Enn vantar þá um tíu miða sem hann getur ekki gert grein fyrir.
Hefði kannski átt að senda tölvupóst á laugardeginum
Björn sagði að mistök sín væru margþætt. Í fyrsta lagi, þegar hann áttaði sig á því á laugardeginum, daginn fyrir leikinn, að hann var ekki á leiðinni að fá miðana sem honum hafði verið lofaðir, að þá hefði hann átt að senda tölvupóst til þeirra sem höfðu keypt miðana og greina frá stöðu málsins.
Tók hann ákvörðun um að útvega miða frá öðrum og sagðist meðal annars hafa byggt þá ákvörðun á því að fólk var mætt út til Frakklands. „Egóið spilaði inn í, þú reddar þessu. Ég verð síðan á endanum gaurinn sem klúðrar upplifun fyrir öðru fólki,“ sagði hann.
Miðarnir sem hann átti að fá frá seinni aðilanum komu seint og illa og ákvað hann að afhenda þá fyrir utan völlinn, ekki á hótelinu eins og lagt var upp með í upphafi. Þegar hann kom með miðana sagðist hann ekki hafa ráðið við ástandið en mikill tilfinningahiti og reiði hafi verið hjá fólki.
„Ef svikamyllan var í gangi, ef ég var að svíkja fólk, hvers vegna mætti ég þá á völlinn ef ég var ekki með miða,“ sagði Björn, aðspurður um hvort þetta hefði ekki verið svikamylla hjá honum.