Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, flutti jómfrúarræðu sína í morgun. Horfðu á ræðuna hér fyrir neðan.
Þar sagðist hún, sem þingmaður af erlendu bergi brotnu, vonast til að fá tækifæri til að greiða leið fyrir fleiri innflytjendur til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi.
Ræðan vakti athygli og sagðist Björt Ólafsdóttir, sem einnig er þingmaður Bjartrar framtíðar, hafa grátið í fyrsta skipti í þingsal þegar Nichole flutti ræðuna.
Ég hef aldrei áður grátið í þingsal. En jómfrúarræðan hennar Nichole Leigh Mosty var svo mikið dúndur að mörg hjörtu tóku kipp.
Nichole sagði að sem leikskólastjóri hafi hún fengið þann heiður að þjóna mörgum fjölskyldum sem voru af erlendu bergi brotnar.
„Í því starfi upplifði ég að ekki eru allir á Íslandi jafnir,“ sagði hún.
Sagði hún jafnframt að alls staðar væri skortur á vinnuafli í samfélaginu en allt of fáir útlendingar fái erlenda menntun sína metna til fulls.
„Í menntun og menntunarkerfi felast tækifæri til að jafna stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi. Þar finnst þó einnig mismunun á milli innflytjenda og innfæddra. Börnum sem tala fleiri en eitt tungumál er ekki boðið að efla móðurmál sitt samhliða íslensku með þeim afleiðingum að þeirra helsti styrkleiki hefur lítið sem ekkert gildi í íslenska skólakerfinu og brottfall nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir er töluvert hærra en íslenskra nemenda,“ sagði Nichole einnig.