Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar, skýtur föstum skotum á Össur Skarphéðinsson í kjölfarið á minningargrein um Bjarta framtíð sem Össur birti á Facebook í morgun. Björt kallar Össur „krúttmús“ og segist skilja vel erfiðleikana sem felast í því að enginn sé að pæla í hvað maður er að gera.
Össur Skarphéðinsson brást við frétt um að Björt framtíð myndi ekki bjóða fram í Reykjavík í vor með einskonar minningargrein um flokkinn á Facebook. Hann segir saga flokksins vera einhverja mestu sorgarsögu síðari tíma stjórnmála og að ekkert liggi eftir flokkinn.
„Hans verður ekki minnst fyrir neitt nema hugsanlega þingmál um að breyta klukkunni og fyrir að springa á limminu í ríkisstjórn á nýju hraðameti í stjórnmálasögunni,“ segir hann.
Þá segir hann að Björt Ólafsdóttir hafi tekið sér ógleymanlegan sess í þingsögunni þegar hún notaði sali Alþingis til að láta taka af sér tískumyndir til að auglýsa kjólaframleiðslu vinkonu sinnar.
Í færslu sinni á Facebook kallar Björt Össur „krúttmús“ og segir að hann sé að reyna að pirra fólk eins og hana. „Og fá fyrir vikið fleiri fyrirsagnir og myndir af sjálfum sér á miðlunum,“ segir hún.
„Ég skil vel að það sé erfitt að það sé enginn lengur að pæla í því hvað maður sé að gera, tengi meira að segja við tilfinninguna -gamla sem er ekki lengur ráðherra eða neitt! En þessi aðferð til þess að koma sér í umræðuna er heldur þreytt.
Ef ég ætti krónu fyrir hvert skipti sem margir ágætir karlar á miðjum (en fínum) aldri hafa boðist til þess að útskýra veruleikann fyrir mér og öllum hinum um ýmis mál, eins og stjórnmálaflokkinn Bjarta Framtíð, ja þá væri ég moldrík elskurnar mínar. Annars bara góð að njódda og liffa.“