Mynd af Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, á Instagram-aðgangi breska tískumerkisins Galvan London hefur vakið mikla athygli. Björt hefur verið gagnrýnd fyrir að taka þátt í auglýsa merkið í þingsal Alþingis en listrænn stjórnandi merkisins er Sólveig Káradóttir, vinkona Bjartar.
Umrædda mynd má sjá hér fyrir neðan
https://www.instagram.com/p/BXDliQenlBO/?taken-by=galvanlondon
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir á Vísi í dag að myndin komi honum á óvart. „Strangt til tekið er þetta ekki brot á reglunum en þetta er auðvitað dálítið óvenjulegt,“ segir hann.
Björt svarar gagnrýninni á Facebook-síðu sinni í dag. „Obbosí. Næst verð ég með bindi til þess að hvetja karlkyns samþingmenn mína til að bera það í þingsalnum,“ segir hún.
Nú ansi hrædd um að einhverjum muni líka það. Nei, við frekari umhugsun. Það gæti auðvitað endanlega farið með feðraveldið eins og það leggur sig.
Björt segist skilja að fólki þyki Alþingi vera helgur staður og vilji standa vörð um virðingu þess. „Ég hef reyndar oft verið í íslenskri hönnun þar áður og um það hefur verið fjallað, til dæmis á samfélagsmiðlun. Það var alls ekki ætlun mín að brjóta gegn því. Mér þykir miður ef þessi ljósmynd skapi slík hughrif.“