Björt Ólafsdóttir fyrrum umhverfisráðherra og núverandi formaður Bjartrar framtíðar segir að kosning innan fokksins um það hvort ætti að slíta stjórnarsamstarfi síðustu ríkisstjórnar hafi verið haldin of snemma. Þetta segir hún í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Björt segir að órói hafi myndast í ríkisstjórninni þegar í ljós kom að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson hefðu vitað um uppáskrift Benedikts Sveinssonar um uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar, í nokkrar vikur án þess að upplýsa aðra ráðherra.
Haldinn var fundur hjá Bjartri framtíð að kvöldi til 14. september og afstaða stjórnar flokksins var skýr. „Fólki var eðlilega ofboðslega misboðið. Stjórn Bjartrar framtíðar vildi út og ég skildi það bara mjög vel. Hefðum við átt að setjast niður og ræða málin lengur? Já,“ er haft eftir Björt í Fréttablaðinu.
Hún tók nýlega við formennsku í flokknum og segist í viðtalinu ætla að rífa flokkinn upp á ný. „Við þurfum að reyna að tala betur til þess hóps sem kannski lætur minnst sjá sig á kjörstað, sem er unga fólkið,“ segir Björt.