Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í morgun fyrir leik Íslands gegn Króatíu á morgun. Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is, sló í gegn á fundinum þegar hann þóttist vera blaðamaður frá tímaritinu Bleikt og blátt.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar skellti upp úr og átti erfitt með að svara þegar Hörður Snævar spurði hann út í endurheimt sem blaðamaður frá Bleikt og blátt en blaðamenn eiga að kynna frá hvaða fjölmiðli þeir koma áður en þeir bera upp spurningu. „Þessi var góður hjá Höddi, ég gef þér það,” sagði Aron.
Sjá einnig: Stressaðir Íslendingar geta nú reiknað út hvaða úrslit nægja landsliðinu til þess að komast áfram á HM
Bleikt og blátt var tímarit með erótísku ívafi sem var gefið út hér á landi en útgáfunni var hætt árið 2008. Grínið sló í gegn á blaðamannafundinum og viðstaddir höfðu gaman af.
Í lok fundarins spurði Heimir Hallgrímsson hvort að hann kæmist á forsíðuna hjá Bleikt og blátt.
Ísland og Króatía mætast klukkan 18:00 á morgun í lokaleik liðanna í D-riðli. Ísland á enn möguleika á því að komast áfram í 16 liða úrslit mótsins en hér getur þú reiknað hvernig þeir geta það.
Hér má sjá blaðamannafundinn í heild sinni en atvikið á sér stað eftir 8 mínútur og 25 sekúndur
https://youtu.be/apVSEyNRofk