Hún segist ekki vilja hlusta á fólk ræða um fullnægingar sínar, blæðingar, sjálfsfróun og útlit píka. „Af hverju má sumt ekki bara vera prívat,“ spyr hún í pistli sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. Eyjan greindi fyrst frá pistli Ásdísar.
Ásdís rifjar upp Free the Nipple-herferðina og segir að nú eigi víst að frelsa píkuna.
„Öll munum við eftir Free the Nipple-herferðinni þegar geirvartan var loksins frelsuð, eftir að hafa verið í ánauð líklega frá örófi alda. Nú eiga konur að geta gengið berar að ofan og sýnt á sér brjóstin hvar og hvenær sem er,“ skrifar hún.
Þær Inga Björk Bjarnadóttir og Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir vildu opna umræðuna um píkuna og fengu til þess styrk frá Reykjavíkurborg. Þær frumsýndu myndband síðasta föstudag sem þær gera undir merkjum Völvunnar.
Aftur að pistli Ásdísar.
„Málefni píkunnar? Er hún nú allt í einu komin með fullt af málefnum á dagskrá? Mín hefur bara engar sjálfstæðar skoðanir, hvað þá málefni. Ég gæti þó reynt að spyrja hana í kvöld. Hvað henni finnist. Til dæmis hvað hún vill heita. Vill hún láta kalla sig píku, buddu, pjöllu eða tussu?,“ spyr hún.
En aftur að verkefninu.
„Stúlkunum finnst vanta opinskáa umræðu um píkuna og telja að fræðsla í skólum sé takmörkuð. Verkefnið snýr líka að líkamsvirðingu, kynferðisofbeldi, getnaðarvörnum, kynlífi, sjálfsfróun og barneignum og vissulega má alveg ræða þessa hluti, sérstaklega í skólum,“ skrifar Ásdís.
Hún veltir fyrir sér hvort næst eigi að frelsa punginn. „Hann er jú niðurnjörvaður og ófrjáls flesta daga,“ skrifar hún.
Ásdís segist að lokum bíða eftir skrúðgöngunni.
„Konur sameinast og ganga berar að neðan niður Laugarveginn. (Kannski ráð að fresta þessu til sumars svo við fáum ekki allar blöðrubólgu.) En ég veit ekki. Á ég að viðra á mér píkuna niður Laugaveginn? Í alvöru. Vill það einhver?,“ spyr hún.