Argentínska knattspyrnusambandið (AFA) hefur verið gagnrýnt fyrir að vera með sérstakan kafla um hvernig á að eiga séns í rússneskar konur í leiðarvísi sem blaðamenn á leiðinni á heimsmeistaramótið í fótbolta fengu afhentan. Þetta kemur fram á vef BBC.
Í leiðarvísinum var meðal annars mælt með því að blaðamennirnir lyktuðu vel og væru klæddir í flott föt til að ganga í augun á rússneskum stelpum. Þá voru þeir hvattir til að koma vel fram við þær.
Argentínski blaðamaðurinn Nacho Catullo var á meðal þeirra sem mætti á námskeið á vegum AFA. Hann tísti mynd af blaðsíðu þar sem fjallað var um hvernig ætti að heilla rússneskar konur og tístið fór á mikið flug á meðan námskeiðið var í gangi.
Í frétt BBC kemur fram að námskeiðið hafi þá verið stöðvað, leiðarvísunum safnað saman og svo skilað aftur án blaðsíðunnar með leiðarvísinum umdeilda.
Á meðal þess sem kom fram var að rússneskar konur væru fallegar og að karlmenn vilji í mörgum tilvikum sofa hjá þeim. „Kannski vilja þær það líka en þær eru manneskjur sem vilja láta koma vel fram við sig,“ segir í leiðarvísinum.
Ekki spyrja heimskulegra spurninga um kynlíf. Kynlíf er ekki rætt opinberlega af Rússum.
Argentínskir karlar eru hvattir til að vera öruggir með sjálfa sig og að það sé eitthvað sem rússneskar konur kunni að meta. „Munið að margar rússneskar konur þekkja heimaland ykkar ekki vel. Þú ert nýr og öðruvísi og hefur það fram yfir rússneska karla,“ sagði í leiðarvísinum.
Loks voru karlarnir hvattir til að velja vel og einbeita sér að konum sem þeir eiga mögulega séns í. „Rússneskar konur eru yfirleitt hrifnar af mikilvægum hlutum en þú finnur líka konur sem hugsa meira um veraldleg gæði, eins og peninga eða hvort þú sért myndarlegur. Ekki hafa áhyggjur af því, það eru margar fallegar konur í Rússlandi og þær eru ekki allar fyrir þig. Vertu vandlátur!“