Dýraverndurnarsamtökin Reykjavík Animal Save hafa boðað til mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar SS í Árborg. Mótmælin fara fram föstudaginn 5. október og hvetja skipleggjundur mótmælanna þáttakendur til að koma með myndavélar, spritt eða lög til að syngja fyrir dýrin eða starfsmenn.
Samtökin hafa búið til viðburð á Facebook þar sem allir eru boðnir velkomnir á viðburðinn. „Komið með okkur á samstöðuvöku fyrir dýrin. Við munum bera vitni þegar lömb og kindur eru sendar til slátrunar í Sláturhús Suðurlands. Við munum vera með þeim þeirra síðustu stundir, skrásetja aðstæður þeirra og dreifa eins mikilli samúð og ást og við getum,“ segir í texta sem fylgir viðburðinum.
Með mótmælum sínum vilja samtökin senda sterk skilaboð. „Með því að mæta þarna fyrir utan sláturhúsið sendum við sterk skilaboð um að þessir einstaklingar eiga rétt á umhyggju, frelsi og réttlæti, og að þeirra dauði sé ekki falinn umheiminum. “
Mótmælendur eru hvattir til að taka með sér eftirfarandi hluti:
- Myndavél
- Sótthreinsispritt
- Föt með vegan skilaboðum
- Hlý föt eftir veðri
- Lag / ljóð / ræðu til að deila. Þú getur beint því að dýrunum, verkamönnunum, samfélaginu, vegönum eða öðrum – Þitt er valið
- Taktu endilega með vini og vandamenn, við viljum endilega fá fleiri ekki-vegana á þessar vökur.