Vöxtur Borgunar erlendis er meðal annars fólginn í því að fyrirtækið hefur stundað viðskipti við klámsíður, vefspilavíti og vefsíður sem selja lyf á internetinu. Þetta kemur fram í leiðara ritstjórans Þórðar Snær Júlíussonar á Kjarnanum.
„Um er að ræða viðskiptavini sem flest önnur færsluhirðingarfyrirtæki hafa ekki viljað vera í viðskiptum við,“ segir Þórður í leiðaranum. Þórður segir íslenska ríkið bera ábyrgð í málinu þar sem Borgun er í 63,5% eigu Íslandsbanka, sem er að fullu í eigu ríkisins.
Í síðustu viku var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun voru gefnir tveir mánuðir til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins.
„Málið er svo alvarlegt að því var á mánudag vísað til embættis héraðssaksóknara þar sem það er rannsakað vegna gruns um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað,“ segir Þórður á vef Kjarnans.
Þegar Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun á sínum tíma var ein af ástæðunum sem var tilgreind sú að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum og að starfsemin gæti skaðað orðspor bankans. Þórður fullyrðir í leiðara sínum að orðsporsáhættan hafi verið til komin vegna þess að Borgun hugðist sækja viðskipti til aðila sem seldu aðgang að klámi, fjárhættuspilum og lyfjum á internetinu.