Auglýsing

Brad Pitt þefar af París norðursins

Framleiðslufyrirtækið Plan B hefur sýnt áhuga á að endurgera kvikmyndina París norðursins fyrir bandarískan markað. Plan B er í eigu Brad Pitt og hefur framleitt myndir á borð við 12 Years a Slave, Eat Pray Love og Moneyball. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri París norðursins, segist í samtali við Fréttablaðið lítið geta tjáð sig um málið en staðfesti þó áhuga Plan B:

Það var haft samband við okkur í kjölfar þess að það var skrifað mjög lofsamlega um myndina í helstu kvikmyndatímaritum. Það er í raun ekki hægt að segja mikið um þetta akkúrat núna en þetta eru örugglega einhverjar hugmyndir um að endurgera hana.

Mynd eftir Hafstein Gunnar hefur áður verið endurgerð í Bandaríkjunum. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Á annan veg, var endurgerð af leikstjóranum David Gordon Green. Hún fékk nafnið Prince Avalanche vestanhafs og skartaði Paul Rudd í aðalhlutverki.

Hafsteinn segist hafa orðið var við áhuga á París norðursins vestanhafs eftir að jákvæðir dómar fóru að birtast í kvikmyndatímaritum og bendir á dóm Hollywood Reporter.

Þá er hann ánægður með viðtökurnar hérlendis. „Myndin er búin að fá mjög fín viðbrögð, hún virðist hafa hitt á einhvern streng hjá þjóðinni og aðsókn hefur verið mjög góð,“ segir hann í Fréttablaðinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing