Íslenskufræðingurinn og tónlistarmaðurinn Bragi Valdimar Skúlason er búinn að finna íslenska þýðingu á hugtakinu GOAT, sem stendur fyrir „Greatest of all time“ eða Magnaðasti allra tíma. Bragi Valdimar leggur til að notast verði við hugtakið SALAT sem er stytting á „sennilega albesti leikmaður allra tíma.“
Ómar Hauksson varpaði fram spurningu á Twitter í dag um hvort það hefði einhverjum tekist að þýða GOAT yfir á íslensku þannig að það komi eðlilega út og Bragi Valdimar var ekki lengi að bregðast við.
Hugtakið GOAT er ansi vinsælt á Internetinu en fólk sem hefur skarað fram úr á sínu sviði fær yfirleitt þann heiður að vera kallað GOAT. Sem dæmi er oft talað um knattspyrnukappann Lionel Messi sem GOAT fótboltans.
Nú höfum við Íslendingar okkar eigin útgáfu af hugtakinu og Bragi Valdimar valdi viðeigandi einstakling til að fá þann heiður að vera fyrsta SALAT-ið. „Megas er SALAT,“ skrifaði hann á Twitter.
Nærtækast væri eitthvað eins og GÍLL (Goðsögn í lifanda lífi). Mögulega BÍLL, ef goðsögn er skipt út fyrir best.
En „sennilega albesti leikmaður allra tíma“ nær þessu prýðilega. Samanber „Megas er SALAT“.— Bragi Valdimar (@BragiValdimar) June 18, 2019
https://twitter.com/Oswarez/status/1140636043936522241