Breska útgáfan af karlatímaritinu FHM fjallar um stóra kökumálið sem kom upp á Alþingi í vikunni. Tímaritið vísar í rannsókn Nútímans á tegund kökunnar sem tældi Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra úr þingsal.
Sjá einnig: Súkkulaðikaka með perum í mötuneyti Alþingis
Sigmundur Davíð yfirgaf þingsal á mánudag á meðan að fyrirspurn sem beint var til hans var til umræðu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu að Sigmundur hefði farið út úr salnum til að fá sér köku og sökuðu hann um óvirðingu.
Nútíminn kannaði málið og komst að því að súkkulaðikaka var á boðstólnum í mötuneyti Alþingis. Kakan var með brúnu kremi og niðursoðnum perum. Samkvæmt heimildum Nútímans „nálgaðist hún“ að vera djöflaterta.
Kakan var þó aðeins einnar hæðar og boðið var upp á rjóma með. Heimildir Nútímans herma að Sigmundur hafi fengið síðustu sneiðina, lokað sig af og borðað hana.
FHM ræðir við Richard Burr, sem tók þátt í raunveruleikaþættinum Great British Bake Off, og biður hann um uppáhaldsuppskriftina sína.
Hann gefur lesendum uppskrift að einhvers konar kleinuhringjaköku með hlynsýrópi — uppskrift sem mötuneyti Alþingis ætti mögulega að skoða.