Twitter hyggst hætta að telja myndir og tengla með í tístum. Tenglar og myndir hafa hingað til étið upp fjölmarga stafi í tístum en eins og þau sem nota samfélagsmiðilinn vita þá er hámarkið 140 stafa. Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttstofunnar.
Búast má við að breytingin eigi sérstað innan tveggja vikna, samkvæmt frétt Bloomberg. Forsvarsmenn Twitter neita að tjá sig um málið. Breytingin ku vera hluti af aðgerðaáætlun sem miðar að því að gera Twitter sveigjanlegri fyrir notendur.
Jack Dorsey, forstjóri Twitter, sagði í janúar að fyrirtækið væri að leita nýrra leiða til að birta texta á Twitter og að framundan væru tilraunir út frá því hvernig fólk notar samfélagsmiðilinn. Fólk notar ýmsar leiðir til að koma að lengri texta, til dæmis með því að birta skjáskot eða skrifa mörg tíst í röð sem tengjast saman.