Sælkerar víða um heim eru miður sín vegna breytinga á útliti Toblerone-súkkulaðsins. Sumir hafa þó reynt að finna gleðina á ný og sjá það jákvæða í stöðunni.
Framleiðandinn Mondelez International hefur aukið bilið á milli þríhyrninganna og fyrir vikið eru 400 og 170 gramma súkkulaðistykkin léttari.
Sjá einnig: Skandall skekur sælgætisheiminn, Toblerone breikkar bilið á milli þríhyrninganna
Nat Morris deildi þessari mynd á hópnum Shit London
Hún notaði nýja Tobleronið til að geyma dagblaðið Mirror og tvo penna en fyrir breytingarnar hefði ekki veirð hægt að geyma hlutina þar með góðu móti.
Nat Morris deildi myndinni á Facebook-síðunni Shit London.
Tæplega tvö þúsund manns hafa lækað færslu Morris.
Á vef BBC kemur fram að breytingin sé gerð til að bregðast við hækkandi hráefnisverði. Fyrirtækið segir að annað hvort hafi þurft að hækka verðið á súkkulaðinu eða gera þessa dramatísku breytingu á súkkulaðinu.
Toblerone-súkkulaðistykki sem voru 400 grömm eru því 360 grömm í dag og 170 gramma súkkulaðið er 150 grömm. Stærð pakkninganna er sú sama og áður. „Við breyttum lögun súkkulaðisins til að halda vörunni á viðráðanlegu verði fyrir viðskiptavini okkar,“ sagði fyrirtækið í yfirlýsingu á Facebook.
Í Bretlandi hafa matvælaframleiðendur kvartað undan hækkandi hráefniskostnaði í kjölfarið á því að Bretar ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið. Talsmaður Mondelez segir að þrátt fyrir að gengi pundsins sé ekki fyrirtækinu í hag þá sé breytingin ekki gerð vegna Brexit.