Ömurleg sjón blasti við sjálfboðaliðum samtakanna Villikatta í dag þegar þeir komu í skýli sem notað er fyrir ketti sem samtökin sjá um. Búið var að brjóta allar rúður þannig að glerbrotin voru út um allt hús, lásinn á hurðinni var brotinn upp og dyrnar skildar eftir opnar og fjórar kisur voru horfnar. Tvær kisur voru enn í húsinu en önnur þeirra slapp út eftir að sjálfboðaliðarnir kom.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu samtakanna. Villikettir hafa að undanförnu verið að bjarga hátt í sjötíu köttum frá aflífun en þeir voru allir á sama heimilinu. Samtökin fengu húsið sem skemmdarverkin voru unnin tímabundið til að geta sinnt þessum hópi.
„Það er ömurlegt að það sé til fólk sem hagar sér svona, beri enga virðingu fyrir eigum annarra og saklausum dýrum. Nú þurfum við að reyna að finna þær kisur sem sluppu út, vonandi gengur það upp,“ segir í færslu Villikatta. Hægt er að fylgjast með félaginu á Snapchat: villikettir