Alþingismaðurinn Brynjar Níelsson vann pub quiz á sportbarnum Blásteini í Árbænum síðasta laugardag. Gústaf, bróðir Brynjars, var með honum í liði sigruðu þeir eftir harða keppni við Eyjólf úr Skorradal, sem er með þeim á myndinni.
Brynjar segir þá hafa tekið þátt fyrir einskæra tilviljun:
Við bræður fórum nú á pöbbinn í hefðbundnum erindagjörðum enda ekki með ólyst á víni. Verðlaunin, 30 drykkir á barnum, freistuðu bróður míns svo við slógum til.
Spurður hvort hann sé afreksmaður í spurningaleikjum segir Brynjar að hann hafi verið hálfgerður límheili á árum áður. „Sjálfur var ég þokkalegt spurningaljón á yngri árum og eiginlega límheili sem átti auðvelt með að muna símanúmer og bílnúmer,“ segir hann léttur. „Minni mínu hefur þó hrakað verulega seinni ár, svo mjög að ég man hvorki símanúmer heima hjá mér né bílnúmer eigin bíla, jafnvel tekur stundum langan tíma að muna nöfn minna nánustu. Hann er skrítinn þessi heili.“
Sigur Brynjars var hans fyrsti í opinberri spurningakeppni en man ekki eftir að hafa tekið þátt í slíkri keppni áður.
Spurður hvort hinir besservisserarnir á staðnum hafi skotið á þingmanninn segist Brynjar ekki hafa orðið fyrir neinu aðkasti. „Það er gaman að eiga samskipti við kjósendur á pöbbnum og sennilega vorum við bræðurnir einu besservisserarnuir á staðnum eins og svo oft áður. Og skiptir þá ekki máli hvar við erum staddir.“