Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur svarað Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, eftir að Helgi benti á að Brynjar hafi ekki lagt fram frumvarp, þingsályktunartillögu eða fyrirspurn á kjörtímabilinu 2013 til 2016. Brynjar segir í svari sínu á Facebook að Helgi sé að kæfa „okkur hin“ með endalausum fyrirspurnum „um ekki neitt“. Helgi hefur hins vegar spurt um nokkur stór mál.
Eins og Nútíminn greindi frá fyrr í kvöld þá birti Brynjar pistil eftir Björn Bjarnason fyrr í vikunni og sagði Björn hitta naglann á höfuðið „eins og svo oft áður“. Í pistli sínum sem Brynjar tekur undir fjallar Björn um Pírata og segir þá málefnalausa.
Helgi svaraði þá Brynjari í athugasemd og sagði hann kasta grjóti úr glerhúsi. „Það vill nefnilega svo merkilega til, að á því tímabili sem þú tekur undir með Birni Bjarnasyni að Píratar hafi verið skoðana- og iðjulausir, að þá lagðirðu sjálfur ekki eitt einasta þingmál fram undir eigin nafni,“ sagði hann.
Brynjar birti færslu á Facebook í kvöld þar sem hann segist sjá að Helgi sé viðkvæmur fyrir því að hann skuli deila pistli Björns. „En Helgi metur framlag þingmanna eftir því hvað lögð eru margar vitlausar fyrirspurnir og þingsályktanir fyrir þingið,“ segir hann.
Hann hefur greinilega aldrei starfað í stjórnarmeirihluta og veit ekki hvað felst í formennsku í þingnefndum. Ég hef bara eitt ráð til Helga. Kynntu þér málin sem eru til meðferðar og taktu afstöðu til þeirra áður en þú kæfir okkur hin endalausum fyrirspurnum um ekki neitt.
Nútíminn kynnti sér fyrirspurnir frá Helga Hrafni sem Brynjar segir að séu ekki um neitt. Helgi hefur meðal annars lagt fram fyrirspurn til innanríkisráðherra um vopnaburð lögreglunnar, námsráðgjöf og tannlækningar fyrir fanga, um lögmæti smálána ásamt því að spyrja um spyrja kynferðisbrot á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árin 2015 og 2016. Svo eitthvað sé nefnt.