Brynjúlfur Jóhannsson hefur verið kærður til lögreglu af tollstjóra fyrir að koma til landsins með fimm sveðjur í farangrinu. Hann segir sjálfur að blöðin á sveðjunum hafi verið um 50 sentímetrar og að hann hafi ætlað að nota þær í landbúnað. Þetta kemur fram á DV.
Sjá einnig: Brynjúlfur er þjónn lífsins og meistari orkunnar, biður lögregluna um að virða vinnuna sína
Brynjúlfur segist í samtali við DV ætla að berjast fyrir því að fá sveðjurnar aftur og að þær myndu gera líf hans litríkara. „Mér finnst þetta svo heimilislegt. Mig dreymdi um að þær kæmu aftur. Það eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli,“ segir hann. Hann bætir við að honum þyki skemmtilegt að fá kæru á sig þar sem hann hafi þá eitthvað fyrir stafni.
Kristín Péturs, útsendari Nútímans, hitti Brynjúlf á heimili hans í fyrra og ræddi við hann um meðferðirnar sem hann býður upp á. „Eitt sem mig langar að koma inn á. Mig langar að hreinsa orkuna í kringum sveppi. Það sem ég finn er spenna frá umhverfinu,“ sagði hann meðal annars.