Auglýsing

Búast við eldgosi á hverri stundu: Lögreglustjórinn óttast um velferð íbúa

Almannavarnir, Veðurstofa Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum búast við því að eldgos hefjist á hverri stundu. Þrátt fyrir það er fjöldi íbúa sem hafa kosið að búa í húsum sínum í Grindavík og eru dæmi um að fjölskyldur með börn hafist þar við.

„Á sama tíma þurfa almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurnesjum að halda úti sólarhringsvakt sem er óþekkt inn í Grindavík á friðartímum. Þetta kostar allt peninga og í mínum huga þá vil ég höfða til skynsemi þessa fólks og það íhugi stöðu þeirra sem þurfa dvelja þarna næturlangt til að passa þessa íbúa.“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur gríðarlegar áhyggjur af þessum hópi íbúa og óttast hann um velferð þeirra og vill helst ekki sjá að fólk dvelji í Grindavík að næturlagi. Þessu eru aðrir viðbragðsaðilar sammála en svo virðist sem að talað sé fyrir daufum eyrum þó svo að dregið hafi úr þeim fjölda fólks sem dvelji í bænum.

Fólk dvelur á stórhættulegu svæði

Úlfar var í viðtali við Stöð 2 í kvöld en þar var birt mynd af ákveðnu svæði innan Grindavíkur sem talið er stórhættulegt en það er flokkað sem „óásættanleg áhætta“ en þar hefur til að mynda fólk dvalið að næturlagi.

Skjáskot úr útsendingu Stöðvar 2 og sýnir hættusvæðið í Grindavík

„Við metum það sem svo að það sé meiri hætta innan þessa reits, það er svæði norðan Austurvegar og austan Víkurbrautar. Í augnablikinu er dvalið þarna í sirka 3 til 4 húsum. Ég vil nú höfða til þeirra sem dvelja þarna á hverjum tíma að hugsa til þeirrar ábyrgðar, þessir einstaklingar eru í bænum á eigin ábyrgð,“ sagði Úlfar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

En þar sem einhverjir íbúar láta sér ekki segjast þá þarf lögreglan að vera með viðbragðssveit, ásamt öðrum viðbragðsaðilum, í bænum á nóttunni sem er talið mjög áhættusamt fyrir alla.

Jörð gæti opnast inni í bænum

„Á sama tíma þurfa almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurnesjum að halda úti sólarhringsvakt sem er óþekkt inn í Grindavík á friðartímum. Þetta kostar allt peninga og í mínum huga þá vil ég höfða til skynsemi þessa fólks og það íhugi stöðu þeirra sem þurfa dvelja þarna næturlangt til að passa þessa íbúa. Það væri best fyrir okkar viðbragð ef það væri enginn inn í Grindavík að næturlagi. Það myndi draga úr öllum kostnaði og styrkja okkar aðgerðir á allan hátt,“ segir Úlfar sem óttast um velferð þeirra sem þar eru allan sólarhringinn.

„Ég geri það sannarlega og það gera það flestir. Ef við horfum til okkar helstu vísindamanna þá er ekki útilokað að þarna geti jörð opnast inn í bænum sjálfum og kannski meiri líkur á að hraun renni inn í bæinn. Opnist þá jafnvel jörð fyrir innan varnargarð fyrir ofan bæinn og hraun geti þá runnið inn í bæinn. Það er líka bara gríðarlega mikil óvissa í þessu öllu. Við sjáum það í spádómum okkar helstu vísindamanna að það gengur erfiðlega að hitta á stað og stund, hvenær byrjar að gjósa og hvar jörð opnast nákvæmlega.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing