Bubbi Morthens ætlar ekki að áfrýja meiðyrðadómi í máli Steinars Bergs gegn sér en hann var dæmdur til að greiða Steinari miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla í sjónvarpsþáttaröðinni Popp- og rokksaga Íslands. Þetta kemur fram í skriflegu svari lögfræðings Bubba til fréttastofu RÚV. Bubbi ætlar ekki að tjá sig frekar um málið.
Sjá einnig: Bubbi og RÚV dæmd til að greiða Steinari Berg miskabætur í meiðyrðamáli
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Bubba og Ríkisútvarpið ohf. nýlega til að greiða Steinari Berg Ísleifssyni samtals 500 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem Bubbi lét falla í þáttunum Popp- og rokksögu Íslands sem sýndir voru á RÚV.
Þar sagði Bubbi að Steinar hefði „mokgrætt“ á honum og hljómsveit hans, Egó, en útgáfufyrirtækið Steinar hf. gaf út plötur hljómsveitarinnar. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk sem og ummæli sem Bubbi lét falla á Facebook 14. og 15. mars árið 2016 og í tveimur viðtölum við Mbl og Vísi þann 17. ágúst sama ár.
Í fréttinni hjá RÚV kemur fram að fyrirtækið hafi ekki ákveðið hvort dómnum verði áfrýjað. Í tilkynningu sem Steinar sendi fjölmiðlum segir hann liggja fyrir að RÚV ætli að áfrýja dómnum og að sá tími sem RÚV hafði til birtingar dómsorðs og forsendna sé liðinn.