Bubbi Morthens skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir með ólíkindum að Dagur B. Eggertsson og Faxaflóahafnir (sem hann kallar reyndar Faxafólahafnir) hafi tekið þá ákvörðun að gera Hvalfjörð að mengaðri ruslakistu.
Vísar hann í fyrirhugaða sólarkísilverksmiðju Silicor Materials Inc. á Grundartanga. Málið er umdeilt en Umhverfisvaktin við Hvalfjörð birti á vef sínum í vikunni opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sem inniheldur 15 spurningar sem óskað er eftir að verði svarað fyrir 13. maí.
Bubbi hvetur alla, ekki bara íbúa í Hvalfirði og Kjós heldur alla íbúa Stór-Reykjavíkursvæðisins, til að rísa upp og mótmæla.
Að fólk skuli telja sig þess umkomið að taka ákvörðun sem þessa og hleypa einu umdeildasta fyrirtæki heims með frjálsar hendur í Hvalfjörðinn er í besta falli heimska, en því miður þá liggur eitthvað annað en heimska að baki, að ég tel.
Hann spyr hvort Faxaflóahafnir og Dagur B. Eggertsson geti lagt til fullnægjandi sannanir fyrir því að Silicor Materials muni ekki losa flúor út í andrúmsloftið.
„Börnin okkar eiga betra skilið en að búa í borg umkringdri mengandi verksmiðjum. Við getum stöðvað þetta en til þess þarf gríðarlegur fjöldi að rísa upp og segja nei: Þetta snýst um framtíð barnanna okkar.“
Smelltu hér til að lesa grein Bubba.