Auglýsing

Bubbi um meinta slaufun samstarfsmanns: „Ég upplifði bara að Auður hefði sannarlega axlað ábyrgð og stigið fram“

Einn af ástsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar var gestur hlaðvarpsins Fullorðins sem nálgast má á hlaðvarpsveitunni Brotkast.is. Þættinum stjórnar Kidda Svarfdal en þangað mætti Bubbi Morthens og ræddi hlutina opinskátt eins og honum einum er lagið. Eitt af því sem Kidda spurði Bubba út í var samstarf hans við söngvarann Auð sem reynt var að slaufa hér um árið.

„Ég upplifði bara að Auður hefði sannarlega axlað ábyrgð og stigið fram. Svo ef einhver segir: „Þetta er ekki rétt afsökunarbeiðni“ eða „Mér finnst þetta ekki nógu vel gert“ eða „Þú ert ekki búinn að eitthvað…“ jájá ókei – mér bara kemur það ekki við,“ sagði Bubbi grjótharður og útskýrði þessa afstöðu sína nánar.

„Ég sá bara það sem hann gerði og hann gerði það mjög fallega og einlæglega og ég hugsaði með mér að þetta væri kornungur maður sem fer yfir mörk, gerir mistök og gengst við því. Fer í burtu í eitt ár. Hann á bara sannarlega skilið að fá að koma tilbaka.“

Rás 2 neitaði að spila lagið

Samstarf þeirra Bubba og Auðar gaf af sér lagið „Tárin falla hægt“ en um er að ræða eitt mest streymda lag síðari ára – þrátt fyrir að fjölmargar útvarpsstöðvar hefðu neitað að spila lagið. Harðast gekk fram útvarp allra landsmanna, Rás 2, og þykir það í raun með ólíkindum að útvarpsstöðin hefði tekið þessa afstöðu gagnvart tónlistarmanni sem aldrei var ákærður fyrir nokkurn skapaðan hlut.

Bubbi fer út í sögu lagsins í þættinum sem er nýjasti hlaðvarpsþátturinn í fjölbreyttu úrvali hlaðvarpsveitunnar Brotkast.

„Ég hafði samband við Auð og ég vissi að hann var með, þér að segja, þegar lagið kemur út þá er það þriggja ára gamalt. Klárað. Við gerðum þetta lag þremur árum áður. Við erum þarna að byrja að vinna saman, ég er mikill aðdáandi hans og ég spyr hann hvað hann vilji syngja um. „Ég vill bara syngja um þig,“ segir hann. Þá sagði ég við hann ókei ég er skíthæll, ég er svona, ég er svona og ég er svona. Hann er séní á sinn máta og daginn eftir þegar ég kem til hans þá er hann búinn að raða þessu öllu saman. Svo kemur hann sér í þessa stöðu og aðrir hluti komu líka upp á – við settum aldrei lagið út,“ segir Bubbi sem svo fór að hugsa um textann, tilurð lagsins og það árferði sem ríkti í samfélaginu.

„Ég sagði svo bara við hann „Auður, hlustum núna á textann og sjáðu hvað hann er nákvæmlega núna“. Þessi texti hefði ekki haft þetta power ef hann hefði komið út fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Það er eins og við hefðum séð eldskírnina – hvað þú værir að fara að ganga í gegnum og þessa sprengju í þjóðfélaginu og þessi texti talar inn í þetta allt. Núna gefum við þetta út sagði ég. Þetta er eitt stærsta lag seinni ára, bæði í streymi og hversu mikil sprengjan varð.“

Hér fyrir neðan birtum við myndskeið úr viðtalinu sem hægt er að sjá og heyra í fullri lengd með áskrift að Brotkast.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing