Fyrsta skóflustungan að nýju 150 herbergja þriggja stjörnu flugvallarhóteli verður tekin í dag en stefnt er á opnun þess haustið 2019. Hótelið verður hluti af alþjóðlegu hótelkeðjunni Courtyard by Marriot en fjármögnun verkefnisins er að fullu lokið. RÚV greinir frá.
Mikill vöxtur í tengiflugi í gegnum Keflavíkurflugvöll kallar á stórt flugvallarhótel undir alþjóðlegu vörumerki að mati forsvarsmanna hótelsins og því kjörið tækifæri að reisa hótel við flugvöllinn.
Marriot er stærsta hótelkeðja heims með rúmlega 6500 hótel og 30 vörumerki um allan heim. Þar af starfrækir Marriot rúmlega 1.100 Courtyard hótel sem eru meðal annars að finna við marga af helstu flugvöllum Evrópu.
Marriot er einnig að undirbúa opnun fimm stjörnu hótels við hliðina á Hörpu við höfnina í miðbæ Reykjavíkur.
Sérleyfishafi Courtyard hótelsins verður íslenska hótelkeðjan Capital Hotels sem rekur meðal annars hótel í Borgarnesi og fjögur hótel í Reykjavík.
Aðaltorg ehf. í Reykjanesbæ er byggingaraðili hótelsins.